Hvað gerir maður ekki fyrir góðan kaffibolla

Tilvera mín þessa dagana er bæði skrýtin og notaleg, tímann nota ég til að hugsa, skipuleggja næstu skref og skoða mig um. Ég keypti mér þetta fína notaða hjól, sem er algjört þarfaþing fyrir óþolinmóða manneskju sem nennir ekki að bíða eftir strætó, á ekki bíl og tímir ekki að taka leigubíl. Ég er búin að hjóla vítt og breitt hér í kring og búin að komast að því að Denia og nærumhverfi er bara alveg ídeal fyrir hjólafólk enda er nóg af því hér.

Á síðasta laugardag ákvað ég að skella mér í smá ferðalag eða alla leið í mollið sem er í næsta þorpi. Þetta eru ekki nema 8 kílómetrar aðra leið segir google vinkona mín, jú mig vantaði nauðsynlega kaffi og alvöru Nespressó fæst bara í mollinu. Hvað gerir maður ekki fyrir góðan kaffibolla enda ekkert að því að hjóla þetta í góða veðrinu og á frábærum hjólastígum þ.e. ef maður heldur sig við það sem fröken google segir manni. Þar sem ég hjólaði hér um stíga sem lágu á milli appelsínuakra á fína hjólinu mínu sem ég sit upprétt á eins og alvöru dama, leið mér bara eins og ég ætti allan heiminn, brosti út í loftið og lét hugann reika, svo dásamlegt og jafnast á við bestu hugleiðslu. Svo áður en ég vissi af var ég komin í bæinn Ondara þar sem mollið er rétt við bæjardyrnar, búin að hjóla milli akra og heilsa uppá appelsínutínslumenn sem hvíla sig á palli vörubíls og láta eins og ég sé flottust og fínust af öllum. Hvað sé ég, mollið er hinum megin við þjóðveginn, ekki hraðbrautina sem betur fer en það er samt alveg umferð sko. Þar sem ég var svo æst og spennt þegar ég sá þetta mikla mannvirki tókst mér að reka ekki augun í göngubrúna sem liggur yfir þjóðveginn svo ég þræla mér bara inn á veginn og sé þá að ég þarf að fara þetta stóra hringtorg. Úff mér leist ekkert á þetta var næstum búin að ákveða að hjóla bara til baka en svo taldi ég í mig kjark, hjólaði að hringtorginu og komst það í nokkrum áföngum á milli aðreyna, það er þegar enginn bíll var akkúrat að koma þá stundina. Með hjartað í buxunum handviss um að nú væru dagar mínir taldir þá komst ég þetta í rólegheitunum en mikið sem ég andaði léttar eftir þessa hringtorgsferð. Nema hvað þarna var ég komin og kíkti á hvað væri helsti stællinn í klæði og skæði þessi misserin hér á Spáni og keypti mér kaffið mitt. Ég var nú ekki alveg að nenna að hjóla til baka en lét mig hafa það, ekkert annað í boði, það var líklega einhver kvíði í mér við tilhugsunina um að þurfa að fara þetta fjárans hringtorg aftur. Það birti því heldur betur yfir minni þar sem rétti mig upp frá því að hafa aflæst fína fáknum mínum, blasir ekki við mér þessi líka fína göngu- og hjólabrú sem venjulegt fólk notar til að komast yfir þjóðveginn. Það var því ekkert að vandbúnaði og ég skelli mér upp með lyftunni og kemst klakklaust og án nokkurs taugatitrings yfir þjóðveginn.

Ég hjóla í gegnum Ondara sem er fallegur lítill bær, þar sem fullorðnir karlmenn leika sér í boccia á trogum, að mínu mati svona ekta spænsk sveitaþorpastemning. Ég stilli nú fröken google aftur svo ég rati örugglega og þurfi ekki að hjóla einhverja vitleysu enda eru allskonar afleggjara á sveitaveginum og auðvelt að taka ranga beygju. Stundum hlusta ég ekki nógu vel á vinkonu mína í símanum og því tókst mér að fara til hægri í stað vinstri. Það var dýrkeypt hægri beygja eða frekar hafði leiðinlegar afleiðingar þessi ranga beygja þarna úti í sveit.

Þegar ég átti um það bil þrjá kílómetra eftir af heimferðinni þá fer hjólið allt í einu að láta eitthvað einkennilega eins og það hoppaði að aftanverðunni. Þar með var glæsileiki minn á bak og burt. Já það hafði lekið allt loft úr afturdekki hjólsins sem kom svo síðar í ljós að var vegna þess að ég hafði fengið einhverja oddhvassa gróðurnál í afturdekkið, allt út af því ég hafði þurft að fara einhvern fáfarinn ómalbikaðan stíg í villu minni. Ég get ekki sagt að ég hafi upplifað mig eins mikla glæsidömu þessu síðustu þrjá kílómetra sem ég þurfti að teyma hjólið reyndi þó að brosa en bara út í annað. En ég hef oft gengið lengri leið en þetta svo ég hafði bara gott af þessu labbi þó hungrið og þorstinn hafi farið að segja verulega til sín þar sem ég er þarna ein út í sveit á rölti með hjólið mitt með ekkert nema kaffihylkin mín í körfunni á hjólinu. Já þið spyrjið kannski af hverju ég teygði mig ekki í appelsínu en það er ekkert hlaupið að því þar sem bændur passa sínar appelsínur með mannhæðaháum girðingum svo fólk eins og ég freistist ekki til að nappa einni og einni. Þeir eru skynsamir appelsínubændurnir á Spáni.

Ég er búin að láta laga afturdekkið en mun örugglega hlusta betur á vinkonu mína í næstu ferðum um sveitirnar hér í kring.

Yfir og út þar til næst

Kveðja

Fröken forvitin

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s